Þungarokkshljómsveitin DIMMA mun gefa út plötuna Vélráðí byrjun júní og mun svo koma fram á útgáfutónleikum í Hörpu fimmtudaginn 12 júní af því tilefni.
Ekkert aldurstakmark er á tónleikana og hefst miðasalan kl 12:00 á fimmtudaginn 8 maí, hægt er að nálgast miða á midi.is, harpa.is og í miðasölu Hörpu í síma 528 5050. DIMMA hélt þrjá tónleika í Hörpu á síðasta ári og var uppselt á þá alla, það er því vissara að tryggja sér miða sem fyrst.
Vélráð fylgir í kjölfar síðustu plötu sveitarinnar, Myrkraverk, sem kom út í október 2012. Platan sú gerði stormandi lukku og var tíður gestur á hinum ýmsu metsölululistum auk þess sem nokkur lög af henni fóru inn á vinsældarlista Rásar 2.
Myrkraverk var ekki konsept plata sem slík, þó rauði þráðurinn í henni hafi verið skuggahliðar mannlegs eðlis. Fyrir Vélráð sótti DIMMA innblástur í alla þá undirförlu leiki, blekkingar og kúgunartækni sem við mannfólkið notum til að ná stjórn á hvort öðru. Yrkisefnið er dimmt og drungalegt og tónlistin er níðþung og óvægin en jafnframt melódísk og aðgengileg enda er stundum ljós við enda ganganna…
Í kjölfar útgáfu Myrkraverka kom DIMMA fram á mögnuðum tónleikum í stappfullum Norðurljósasal Hörpu, tónleikarnir heppnuðust svo vel að þeir voru gefnir út á tvöföldum tónleika og mynddisk sem hlaut nafnið Myrkraverk í Hörpu og kom út haustið 2013.
DIMMA þykir ein öflugasta tónleikasveit landsins og leggur gríðarlega mikla áherslu á hinn sjónræna þátt tónleika sinna. Það er því hægt að lofa miklu sjónarspili í Hörpu 12 júní, tónleikum sem enginn rokkunandi má láta fram hjá sér fara.
DIMMA eru:
Stefán Jakobsson – Söngur
Silli Geirdal – Bassi
Ingó Geirdal – Gítar
Birgir Jónsson - Trommur