Mattheusarpassían eftir Johann Sebastian Bach
Kór Langholtskirkju og kammersveit ásamt Gradualekór LangholtskirkjuStjórnandi Jón Stefánsson
Í vor eru liðin 50 ár síðan Jón Stefánsson hóf störf sem organisti og kórstjóri við Langholtskirkju. Í tilefni þessara tímamóta flytur Kór Langholtskirkju ásamt Gradualekór Langholtskirkju og tvöfaldri hljómsveit, Mattheusarpassíuna eftir Bach þann 17. maí næstkomandi undir stjórn Jóns.
Benedikt Kristjánsson kemur sérstaklega til landsins til að taka þátt í flutningnum sem guðspjallamaður en hann syngur einnir tenóraríur. Bergþór Pálsson syngur Jesú og aríur.
Meðal annarra einsöngvara verða Davíð Ólafsson sem syngur Pílatus og aríur en önnur einsöngshlutverk eru í höndum kórfélaga.
Passíurnar tvær, sem varðveist hafa eftir Bach, Jóhannesarpassían og Mattheusarpassían, eru skemmtilega ólíkar. Jóhannesarpassían er í ætt við óperur, söguþráðurinn er hraður og leikrænn en í Mattheusarpassíunni gefur Bach sér tíma til að íhuga textann í aríunum sem teljast margar til þess fegursta sem hann samdi.