
Hefst nú tónleikaröðin Tónhvörf með hinum kraftmiklu Kítóns konum sem ætla að gleðja okkur með tónlistarflutningi í Viðey í sumar. Kítón er nýstofnað félag kvenna í tónlist á Íslandi sem hefur það að markmiði að sýna fjölbreytni tónlistarkvennanna enda munu þær leiða saman ólíkar stefnur úr ýmsum áttum í Viðeyjarstofu í sumar. Dúóið Kolka hefur leika sunnudaginn 16. júní kl. 16.
Dúóið Kolka stígur fyrst á stokk en það skipa þær Arnhildur Valgarðsdóttir og Heiða Árnadóttir. Þær stöllur flytja tónlist sem spannar allt frá fornri kirkjutónlist til tónlistar dagsins í dag. Þær munu því bjóða uppá fjölbreytta dagskrá. Tilvalið fyrir fjölskyldur, rómantísk pör eða göngugarpana sem hafa gengið um eyjuna og skoðað hennar villtu blóm fyrr um daginn.
Þær munu frumflytja íslenskt verk eftir Ásbjörgu Jónsdóttur við ljóð Matthíasar Johannessen, Veröld þín. Einnig munu þær flytja ljóð með spuna– og kristallsglasameðleik. Heiða Árnadóttir ætlar að flytja verk eftir John Cage en einnig flytja þær barnalagaflokk eftir skoska tónskáldið Theu Musgrave og lög eftir bandaríska tónskáldið Samuel Barber.
Það kostar 2.700 krónur á tónleikana, frítt fyrir 12 ára og yngri.
2.500 fyrir öryrkja og eldri borgara, á afgreiðslustöðum midi.is. Sigling með ferjunni er innifalin.
Ferjan fer 14.15 og 15.15 frá Skarfabakka