
Fyrir 15 mánuðum síðan hélt tónlistarmaðurinn Ásgeir útgáfutónleika fyrir plötuna sína Dýrð í dauðaþögn í Reykjavík, á Akureyri og Hvammstanga . Núna um 160 tónleikum síðar víðs vegar um Evrópu og Norður-Ameríku er komið að því að endurtaka leikinn.
Föstudaginn 27. desember heldur Ásgeir tónleika í Gamla bíói í Reykjavík
Laugardaginn 28. desember verður hann á Græna hattinum á Akureyri
og sunnudaginn 29. desember heimsækir Ásgeir félagsheimilið á Hvammstanga
Með í för verður hin norska Farao sem hefur séð um upphitun á tónleikaferðalagi Ásgeirs um Evrópu og Bretland undanfarið.
Ásgeir Trausti er landsmönnum að góðu kunnur fyrir ótrúlega velgengni frumraunar hans á tónlistarsviðinu, plötunnar Dýrð í dauðaþögn. Platan sem kom út í september síðast liðnum sló rækilega í gegn, fékk frábæra dóma og seldist í förmum. Um er að ræða bestu frumraun nokkurs íslensks tónlistarmanns.
Það skal engan undra að Ásgeir Trausti hafi unnið til fernra verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum sem haldin voru í febrúar. Platan var valin Plata ársins í poppi og rokki, hann var útnefndur Bjartasta vonin í poppi, rokki og blús, almenningur kaus hann Vinsælasta tónlistarmanninn auk þess sem að Tónlist.is verðlaunaði hann fyrir góðan árangur í að koma tónlist sinni á framfæri á netinu. Ásgeir Trausti var einnig tilnefndur til Norrænu tónlistarverðlaunanna sem afhent voru í Osló í febrúar og í desember síðast liðnum vann platan til hinna íslensku Kraumsverðlauna. Nýverið hlaut Ásgeir einnig hin eftirsóttu EBBA-verðlaun en þau eru veitt þeim sem hafa náð góðum árangri í að koma tónlist sinni á framfæri fyrir utan sitt heimaland. Í sumar spilaði Ásgeir víða um Evrópu og hitaði meðal annars upp fyrir bæði John Grant og Of Monsters and Men en í nóvember hélt hann síðan ásamt sinni hljómsveit í sitt fyrsta stóra tónleikaferðalag um Evrópu sem lýkur 17. desember. Það hefur augljóslega verið mikið að gera hjá Ásgeiri undanfarið og verður það áfram þar sem ensk útgáfa af Dýrð í dauðaþögn sem nefnist In the Silence mun koma út í Bretlandi og Evrópu í lok janúar og í Bandaríkjunum í byrjun febrúar. Þetta er því kjörið tækifæri til að bera kappann augum áður en hann heldur af landi brott aftur snemma í janúar. Þess má geta að enska platan er komin út hér á landi á vegum Senu en ásamt enskum útgáfum af lögunum á Dýrð í dauðaþögn prýða hana jafnframt fimm aukalög.
Farao er sólóverkefni hinnar norsku Kari Jahnsen sem nýverið gaf út sína fyrstu fjögurra laga skífu sem var tekin upp hér á landi af Mike Lindsey sem einhverjir þekkja úr hljómsveitunum Tunng og Cheek Mountain Thief. Á plötunni spilar Kari nánast á öll hljóðfæri og hún hefur sjálf sagt að veturinn í Reykjavík hafi veitt henni mikinn innblástur við gerð plötunnar. Tónlist Farao má lýsa sem melódísku þjóðlagapoppi með ísköldu Norrænu yfirbragði og sem einhvers konar samblöndu af tónlist Bon Iver, Poliça og Laura Marling.
Miðaverð er einungis 3.500 krónur og selt er í númeruð sæti. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 20:00 en húsið opnar klukkutíma fyrr.