
Áratugalöng hefð er fyrir Jólasöngvum Kórs Langholtskirkju. Í ár verða tónleikarnir dagana þrennir, dagana 20. - 22. desember en þar munu Kór Langholtskirkju og Gradualekór Langholtskirkju syngja undir stjórn Jóns Stefánssonar.
Eins og síðustu ár kemur Táknmálskórinn undir stjórn Eyrúnar Ólafsdóttur einnig fram á Jólasöngum og einsöngvarar í ár eru Andri Björn Róbertsson, Guðrún Matthildur Sigurbergsdóttir, Ólöf Kolbrún Harðardóttir og Þóra Einarsdóttir. Einsöngvari með Táknmálskórnum er Kolbrún Völkudóttir.
Þetta verða þrítugustu og sjöttu jólasöngvarnir við kertaljós og að vanda er boðið upp á rjúkandi jólasúkkulaði og piparkökur í hléi. Mikill jólaandi ríkir á tónleikunum og geta fjölmargir gesta vart hugsað sér upphaf jólahátíðarinnar án þess að mæta á jólasöngva.