Hjálmar & Vasks er yfirskrift tónleika sem söngsveitin Ægisif og strengjasveitin Íslenskir strengir standa fyrir mánudaginn 25. nóvember kl. 21:00 í Kristskirkju Landakoti. Hjálmar H. Ragnarsson hefur af þessu tilefni samið nýtt verk sem hlaut styrk úr Tónskáldasjóði RÚV og STEFs.
Ægisif byrjar tónleikana með flutningi á tveimur a cappella kórverkum Hjálmars, Gamalt vers (1980) og Ave maria (1985). Að því loknu koma Íslenskir strengir fram og kynna til leiks stengjaverkið Musica Adventus (1995-1996) eftir eitt fremsta tónskáld Lettlands, Peteris Vasks (f.1946).
Strengjaverkið Musica Adventus er mikið að umfangi og Peteris Vasks fellur boðskapinn "jól og frið til handa jarðarbúum" inní tónmál sitt í áhrifamiklum stíl. Vasks er sérlega þekktur fyrir strengjaverk sem eru stór í sniðum og er t.a.m. fyrsta sinfónía hans skrifuð einungis fyrir strengi.
Í lok tónleikanna sameinast svo flytjendur í frumflutningi á kantötu eftir Hjálmar H. Ragnarsson sem ber heitið Laudem Domini.
Án efa verður klukkutíminn í Kristskirkju sveipaður trúarlegri dulúð þetta kvöld sem tónar fallega við upphaf aðventu og skammdegis.
Miðar eru einnig seldir í safnaðarheimili Kristskirkju klukkustund fyrir tónleika. Takmarkað sætaframboð.
Flytjendur:
Ægisif, stjórnandi: Hreiðar Ingi Þorsteinsson
Einsöngvari: Lilja Dögg Gunnarsdóttir, alt
Íslenskir strengir, stjórnandi: Ólöf Sigursveinsdóttir
Konsertmeistari: Sif Margrét Tulinius
Ljósmynd sem fylgir viðburði: Hreiðar Ingi Þorsteinsson.
Kristskirkja, Landakoti ásamt listaverki Steinunnar Þórarinsdóttur.