Allt frá árinu 2006 hefur Nemendafélag Framhaldsskólans á Laugum staðið fyrir Tónkvíslinni, einum glæsilegasta tónlistarviðburði Norðurlands eystra, ef ekki landsins í heild. Þó Tónkvíslin hafi komið til sem framhaldsskóla-söngkeppni hefur hún þróast út í stærri viðburð og væri í dag mun sambærilegri Söngvakeppni Sjónvarpsins. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson - tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar – lýsti Tónkvíslinni þannig að öll umgjörð hennar hefði verið metnaðarfyllri en hjá Söngvakeppni Sjónvarpsins þegar hann kom sem dómari á Tónkvíslina árið 2016. Umgjörðin sem Þorvaldur Bjarni talar um er skipulögð og sett upp af nemendum FL með aðstoð frá einhverju færasta tækniliði landsins ásamt fólki sem telja mætti til hæfileikaríkasta tónlistarfólks Íslands. Tónkvíslin verður 2019 haldin þann 23. febrúar og er stefnt á að hafa keppnina með svipuðu móti og hún hefur verið. Framhaldsskólanum á Húsavík hefur aftur verið boðið að taka þátt í keppninni sjálfri og í undirbúningi fyrir hana eins og var fyrst gert á Tónkvíslinni 2017. Eins gefst nemendum í efstu bekkjum grunnskóla allt frá Vaðlaheiði austur á Vopnafjörð kostur á að keppa á Tónkvíslinni og eru þá veitt sérstök verðlaun í þeirra keppnishópi. Samstarfið hjá FL bæði við FSH og þessa grunnskóla hefur gengið mjög vel síðastliðin ár og vakið miklar vinsældir. Eins hefur samstarfið skilað sér sem góð auglýsing til fólks enda hafa um 600-700 manns sótt viðburðinn á hverju ári.
↧