Mótettukór Hallgrímskirkju hefur um árabil glatt Íslendinga á jólum og skipa jólatónleikar kórsins veglegan sess í tónleikahaldi Reykjavíkur á aðventunni.
Á tónleikunum í ár býður kórinn að vanda upp hátíðlega efnisskrá þar sem heyra má margar klassískar jólaperlur í bland við mótettur sem ekki hafa heyrst áður á jólatónleikum kórsins. Á meðal höfunda eru Bach, Scarlatti, Sviridov, Gjelo, Bára Grímsdóttir, Hreiðar Ingi og Sigurður Sævarsson. Tónleikagestir fá að taka undir í nokkrum þekktum jólasálmum með kórnum og Klaisorgeli Hallgrímskirkju. Með kórnum leika Auður Hafsteinsdóttur fiðluleikari og Björn Steinar Sólbergsson orgelleikari. Stjórnandi er Hörður Áskelsson.
Haldnir verða tvennir tónleikar í Hallgrímskirkju, sunnudaginn 2. desember kl 17 og þriðjudaginn 4. desember kl 20. Afsláttarmiða fyrir eldri borgara, námsmenn og börn má nálgast í Hallgrímskirkju.