Quantcast
Channel: Miði.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 2696

Opnunartónleikar rúmenskra daga - Fiðlu- og píanóvirtúósar

$
0
0
Mynd

Rómaðir virtúósar, Remus Azoitei and Eduard Stan, hefja rúmenska menningardaga í Reykjavík með tónleikum til heiðurs Enescu og Fauré

Tónleikar með tveimur af fremstu túlkendum tónlistar rúmenska tónskáldsins George Enescu, marka upphaf umfangsmikillar, tíu daga kynningar á rúmenskri menningu; kvikmyndum, bókmenntum, tónlist, sögu, mat og víni. Tónleikarnir varpa ennfremur ljósi á tengsl Enescus og lærimeistara hans, franska tónskáldsins Gabriels Fauré.

Fiðluleikarinn Remus Azoitei hefur komið fram sem einleikari með mörgum af fremstu hljómsveitum Evrópu, t.a.m. Fílharmóníusveit franska útvarpsins (Orchestre Philharmonique de Radio France), Þjóðarhljómsveit Belgíu (Orchestre National de Belgique) og Þýsku kammersveitinni (Deutsche Kammer Orchester). Hann hefur jafnframt leikið í virtum tónleikahúsum víða um heim, t.d. Carnegie Hall og Alice Tully Hall í Lincoln Centre í New York, Concertgebouw í Amsterdam og Wigmore Hall í London.  Í tónlistartímaritinu The Strad var honum líst sem “óheftum snillingi með ríka andagift og mikilfenglega tækni”.  Azoitei er prófessor við Konunglegu tónlistarakademíuna í London og listrænn stjórnandi Enescu Society á Englandi.

Píanóleikarinn Eduard Stan hefur komið fram í mörgum af virtustu tónleikasölum heims og má þar nefna Carnegie Hall í New York, Konzerthaus og Philharmonie í Berlín og Concertgebouw í Amsterdam. Í Frankfurter Allgemeine Zeitung dagblaðinu var píanóleikur hans rómaður fyrir ríka tilfinningu fyrir margbreytilegum tón- og litbrigðum. Eduard Stan og Remus Azoitei hljóðrituðu öll verk Enescus fyrir fiðlu og píanó, en það hafði ekki áður verið gert. Hänssler Classic útgáfufyrirtækið gaf safnið út, en fyrirtækið hefur einnig gefið út hljóðritanir Eduards Stan á píanóverkum ýmissa tónskálda, allt frá Bach til Debussy.

Efnisskrá:
G. Fauré – Fiðlusónata í A-dúr op. 13
G. Enescu – Sónata nr. 3 í a-moll op. 25 “Í rúmenskum, þjóðlegum stíl”

Í þriðju sónötu sinni fyrir píanó og fiðlu teflir George Enescu saman á einstakan hátt einkennum rúmenskrar þjóðlagatónlistar og áhrifum úr ungverskum og slavneskum menningarheimum sem og Gyðingatónlist.

Franska tónskáldið Gabriel Fauré var kennari Enescus og hafði mikil áhrif á hann. Fiðlusónata Faurés markaði nýtt upphaf fyrir tónlist sem skrifuð var fyrir fiðlu og píanó. Eins og kennari Faurés, Camille Saint-Saëns, lýsti þá kom sónatan fram með “ný form, spennandi tóntegundaskipti, óvenjuleg litbrigði og óvænt hrynmynstur”.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 2696