
Kristjana Stefáns og Svavar Knútur á Græna Hattinum
Söngparið Svavar Knútur og Kristjana Stefáns sækja höfuðstað Norðurlands heim 20.september nk. og stefna að því að gleðja kaupstaðarbúa með dásamlegum dúettatónleikum. Kristjana og Svavar Knútur hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir stórskemmtileg dúettakvöld, þar sem þau láta gamminn geysa og taka saman fjölbreytta dagskrá dúetta, sem rúmar allt frá Abba til Dolly Parton með viðkomu hjá Nick Cave og Páli Ísólfssyni, auk frumsamdra laga og hinna ýmsu gleði- og tregabomba. Kántrý, Evróvisjónpoppsmellir, blágresi og íslensk sígræn skólaljóð eru í fyrirrúmi.
Kristjana og Svavar hafa síðan 2008 haft unun af því að syngja saman dúetta og komið fram víða um landið við gríðargóðar undirtektir. Best er að tryggja sér miða í tíma. Forsala aðgöngumiða er á midi.is. Tónleikarnir hefjast kl. 21 og verður kósýkvöldsstemmningin allsráðandi.
Kristjana Stefánsdóttir hefur fyrir löngu skipað sér sess sem ein ástsælasta söngkona landsins og drottning íslenska djassins. Hún hefur gefið út fjölda hljómplatna bæði með sígildum djasslögum, blúslögum og eigin tónsmíðum í samstarfi við marga af færustu tónlistarmönnum Íslands. Hún hefur líka starfað farsællega sem tónlistarstjóri og tónskáld í Borgarleikhúsinu m.a. í hinum stórvinsælu leikritum Dauðasyndunum sjö, Jesús litla og Galdrakarlinum í Oz.
Svavar Knútur hefur undanfarin ár notið ört vaxandi velgengni sem söngvaskáld og tónlistarmaður. Hljómplötur hans, Kvöldaka, Amma og Ölduslóð hafa allar notið mikilla vinsælda og hlotið prýðilega dóma. Svavar Knútur hlaut í vor verðlaun úr minningarsjóði Önnu Pálínu Árnadóttur fyrir starf sitt í þágu eflingar þjóðlagatónlistar á Íslandi. Hann hefur einnig gert víðreist undanfarið og meðal annars ferðast með tónlist sína til Ástralíu, Evrópu, Bandaríkjanna og Kanada.