HJÁLMAR Í BÆJARBÍÓI
Hljómsveitina Hjálma þarf vart að kynna en loksins fáum við að njóta þessa brautryðjanda í íslenskri reggí tónlist í Bæjarbíói þar sem sveitin kemur fram ásamt blásurum föstudaginn 23. febrúar. Eins og landsmenn vita skipa Hjálmar stóran sess í íslenskri tónlistarsögu en sveitin hefur getið af sér fimm breiðskífur, eina safnplötu og eina bestulagaplötu og þótt Hjálmar hafi ekki haft hátt síðast liðin ár sendir sveitin reglulega frá sér nýtt efni, Núna síðast lagið Græðgin ásamt ábreiðu af gamla Flowers laginu Glugganum sem hvoru tveggja hafa notið mikilla vinsælda.
Hjálmar spiluðu fyrir húsfylli á Þrettándafögnuði Bryggjunnar Brugghúss þann 6. janúar síðast liðinn við trylltan fögnuð en þar sannaði sveitin að hún er í hörku formi og telst auðveldlega á meðal albestu tónleikasveita á landinu.
Það er því um að gera að tryggja sér miða á Hjálma nú þegar loks er von á sveitinni til Hafnarfjarðar en til gamans má geta að sveitin hefur til margra ára haft aðsetur í Hljóðrita hér í Hafnarfirði þar sem hún hefur tekið upp allt sitt efni frá árinu 2007.