DIMMA í Gamla bíói föstudaginn 22. jan.
Þungarokksveitin DIMMA mun halda sannkallaða þungarokksveislu í Gamla bíói föstudaginn 22. janúar.Sérstakir gestir verða brennheitu brjálæðingarnir í Kontinuum en einnig mun Dj Kiddi Rokk leika þungar perlur rokksögunnar á milli atriða.
Miðaverð : 2.900.- og er miðasala á midi.is, húsið opnar kl 20:00.
Kontinuum mun fara á svið kl 21:30 og DIMMA fylgir svo í kjölfarið.
Meðlimir DIMMU hlakka mjög til að halda sveitta, harða og langa tónleika í Gamla bíói en þar mun sveitin flytja plöturnar Myrkraverk og Vélráð í heild sinni auk valinna laga af eldri plötum sveitarinnar.
Það er því hægt að lofa því að þetta verði kvöld sem fer í sögubækurnar enda er sveitin í fádæma tónleikaformi þessa dagana og hlakkar mjög til að fá tækifæri til að spila í þessum glæsilega sal þar sem ekkert verður til sparað til að gera umgjörð tónleikana eins kyngimagnaða og mögulegt er.
DIMMA hefur skipað sér í flokk með vinsælustu hljómsveitum landsins síðustu misseri og hefur verið iðin við að koma fram á tónleikum víðsvegar um land. Plöturnar Myrkraverk og Vélráð hittu í mark hjá rokkþyrstum og hafa selst í bílförmum. Vélráð fór beint í fyrsta sæti metsölulistans á Íslandi þegar hún kom út árið 2014 og það gerði einnig tónleikaplatan Guði gleymdir sem kom út sama ár.
DIMMA þykir með betri tónleikasveitum landsins enda fékk sveitin Krókinn 2014 – verðlaun Rásar 2 fyrir lifandi flutning. Nýverið kom sveitin fram á Arnarhóli á Menningarnótt og hefur spilað á öllum helstu tónlistar hátíðum landsins á síðustu misserum svo sem Hammondhátíð, Eistnaflugi, Bræðslunni, Þjóðhátíð, Gærunni, Airwaves og Rokkjötnum.
Í október var enn einn kaflinn í sögu sveitarinnar ritaður en þá kom DIMMA fram með SinfoNord á tónleikum í Hofi á Akureyri og í Eldborg í Hörpu þar sem 80 manna sinfóníuhljómsveit og kórum var blandað saman við ískalt þungarokk DIMMU með gríðarlega góðum árangri.
Þá er ónefnt gríðarlega vel heppnað samstarf sveitarinnar með Bubba Morthens en saman hafa þeir komið fram á fjölmörgum tónleikum og meðal annars fyllt Eldborgarsal Hörpu tvisvar sinnum. Í desember kom svo út tvöfaldur CD/DVD tónleikadiskur með þessu tvíeyki og tilkynnt hefur verið að samstarfið muni halda áfram því að í mars 2016 verði tónlist hinnar goðsagnakenndu rokksveitar Egó sett inn í hljóðheim DIMMU á tónleikum í Háskólabíói.
Vinsamlegast athugið
18 ára aldurstakmark er á viðburðinn.