Hinn óviðjafnanlegi breski karlasextett, The King’s Singers heldur tónleika í Skálholtskirkju, fimmtudaginn 17. september 2015, kl. 18.00. (ath. óvenjulegan tónleikatíma).
King’s Singers óskuðu eftir því að syngja tvenna tónleika í Íslandsferð sinni og tóku fagnandi boði um að syngja í Skálholtskirkju, auk tónleika í Hörpu.
King’s Singers eigan stóran aðdáendahóp og munu þeir sníða efnisskrá sína eftir hljómburði kirkjunnar, og velja viðfangsefni að hluta til á staðnum úr öllum þeim fjölbreyttu stíltegundum sem þeir hafa á valdi sínu. Tónleikarnir standa í 2 klst. með hléi.
The King’s Singers hófu feril sinn 1968 og í stöðugri endurnýjun söngvara hópsins hafa þeir sífellt sýnt óviðjafnanlega fágun, fullkominn tónlistarflutning í öllum stíltegundum, allt frá Bach til Bítlanna, og síðast en ekki síst, frábærar kynningar tónlistarinnar og mikla kímnigáfu þegar tónlistin býður upp á slíkt.
Geisladiskar þeirra eru margverðlaunaðir, en ekkert jafnast á við að vera viðstaddur á tónleikum þeirra.