Söngvakeppnin 2015
Upplifðu stemninguna alla leið – vertu á staðnum!
Miðar líka í boði á undankeppnirnar!
Söngvakeppnin 2015 hefst laugardaginn 31. janúar með beinni útsendingu frá fyrri undankeppninni úr Háskólabíói. Seinni undankeppnin fer fram viku seinna, 7. febrúar og úrslitin verða svo laugardaginn 14. febrúar.
Undanfarin ár hefur unnendum Söngvakeppninnar gefist kostur á því að vera viðstaddir bæði lokaæfingu og úrslit Söngvakeppninnar og hafa færri komist að en vilja.
Í ár munu fleiri eiga kost á því að upplifa Söngvakeppnina á eigin skinni því nú verður einnig hægt að kaupa miða á undankeppnirnar tvær. Hægt verður að kaupa miða á staka viðburði, en einnig verður í boði sérstakur tilboðspakki, Alla leið pakkinn , sem gildir á öll þrjú kvöldin.
Stórskotalið úr íslensku tónlistarsenunni í bland við spennandi nýstirni flytja lögin 12 í ár. Sex lög keppa hvort kvöldið, en svona skiptast keppendur niður á kvöld:
31. janúar – Fyrri undankeppni
Augnablik - Stefanía Svavarsdóttir
Í kvöld - Elín Sif Halldórsdóttir
Í síðasta skipti - Friðrik Dór
Myrkrið hljótt - Erna Hrönn Ólafsdóttir
Piltur og stúlka - Björn og félagar (Björn Jörundur Friðbjörnsson, Unnur Birna Björnsdóttir, Hafrún Kolbeinsdóttir og Pétur Örn Guðmundsson)
Þú leitar líka að mér - HINEMOA (Ásta Björg Björgvinsdóttir, Rakel Pálsdóttir, Sindri Magnússon, Kristófer Nökkvi Sigurðarson, Gísli Páll Karlsson og Regína Lilja Magnúsdóttir)
7. febrúar – Seinni undankeppni
Aldrei of seint - Regína Ósk
Brotið gler - Bjarni Lárus Hall ásamt Jeff Who?
Fjaðrir - SUNDAY (Hildur Kristín Stefánsdóttir, Guðfinnur Sveinsson, Vignir Rafn Hilmarsson og Helga Kristín Ingólfsdóttir)
Fyrir alla - CADEM (Daníel Óliver ásamt Emelie Schytz og Caroline Waldemarsson)
Lítil skref - María Ólafsdóttir
Milljón augnablik - Haukur Heiðar Hauksson
Skemmtikraftar eins og Sveppi og Villi, Gunni og Felix og fleiri góðir hálsar munu skemmta áhorfendum í Háskólabíó fyrir og eftir útsendingu og í hléum. Einnig stíga aðrar hljómsveitir á svið fyrir utan lögin sem keppa, þannig að hægt er að búast við stórskemmtilegu kvöldi fyrir alla.
Kynnar keppninnar í ár eru þær Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, Guðrún Dís Emilsdóttir og Salka Sól Eyfeld.
Á vef Söngvakeppninnar www.ruv.is/songvakeppnin verður frá og með föstudeginum 23. janúar hægt að hlusta á öll lögin, kynna sér keppendur og flytjendur og margt fleira.