Opnunarhátíð Hinsegin daga hefur lengi verið einn vinsælasti viðburður hátíðarinnar. Þar er ekki aðeins um að ræða glæsilega skemmtun þar sem snjallir skemmtikraftar koma fram, heldur er opnunarhátíðin einnig sannkallað ættarmót hinsegin fólks, fjölskyldna þeirra og vina.
Í ár er opnunarhátíðin með öðru sniði en áður og miklar væntingar bundnar við það sem verða vill fimmtudagskvöldið 8. ágúst. Ásdís Þórhallsdóttir leikstjóri annast listræna stjórn dagskrárinnar þetta kvöld en þema þess er HEY ÞÚ SYKUR! og þar mun ástin leika öll aðalhlutverk – í tónlist, sjónlist, myndlist, leiklist. Á stokk stíga ýmsir þjóðþekktir gestir sem á einn eða annan hátt tengjast sögu hinsegin fólks, baráttu þess og listsköpun.
Að skemmtiatriðum loknum bjóða Hinsegin dagar í Reykjavík upp á drykk í Silfurbergi. Tónlistarfólk sér um létta tónlist en gestir njóta veitinga og samveru fram eftir kvöldi.
Pride-passi gildir.